*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 26. apríl 2019 16:57

Eimskip hækkar í kjölfar afkomutilkynningar

Gengi hlutabréfa Eimskips hækkaði um 5,48% í kjölfar tilkynningar um hagstæðari EBITDA afkomu en reiknað hafði verið með.

Ritstjórn
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips.
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 1,47%, upp í 1.969,80 stig en heildarviðskipti dagsins námu 2,3 milljörðum króna.

Eimskip hækkaði mest, eða um 5,48% í 121 milljóna króna viðskiptum og fóru bréfin upp í 183,00 krónur. Félagið sendi seint í gærkvöldi frá sér afkomutilkynningu þar sem kom fram að það líti út fyrir að EBITDA afkoma félagsins á fyrsta ársfjórðungi verði hagstæðari en stjórnendur gerðu ráð fyrir og að afkoman verði á bilinu 10,3 til 10,7 milljónir evra. Til samanburðar var EBITDA afkoman á fyrsta ársfjórðungi 2018 7,3 milljónir evra. 

Samkvæmt afkomutilkynningunni eru helstu ástæður fyrir betri afkomu milli ára aukin umsvif í flutningum í Trans-Atlantic og Færeyjum auk bættrar afkomu í rekstri félagsins í Noregi. Þá hafi afkoma í flutningsmiðlun verið betri en á sama tíma í fyrra og hagræðingaraðgerðir sem farið var í á síðasta ári hafi einnig skilað sér í bættri afkomu. 

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Sýnar, eða um 4,29%, upp í 34,00 krónur, í 116 milljóna króna viðskiptum. Sýn greindi frá því í gær að Heiðar Guðjónsson, fyrrum stjórnarformaður, hafi verið ráðinn forstjóri félagsins. 

Eins og svo oft áður voru mestu viðskiptin með bréf Marels og nam heildarvelta viðskipta dagsins með bréfin 497 milljónum króna. Gengi bréfanna hækkaði um 1,89% í viðskiptum dagsins.

Mesta lækkunin var á gengi bréfa Kviku banka, eða 0,86% í 46 milljóna króna viðskiptum og nemur gengi þeirra nú 11,48 krónum.

Stikkorð: Eimskip Kauphöll Nasdaq Sýn