*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 11. maí 2021 16:01

Eimskip hagnast um 428 milljónir

Tekjur Eimskips á fyrsta ársfjórðungi jukust um 11,5% milli ára og námu rúmum 27,3 milljörðum króna.

Ritstjórn
Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips
Aðsend mynd

Hagnaður Eimskips nam 2,8 milljónum evra eftir skatta, eða um 428,5 milljónum króna á fyrsta fjórðungi ársins, samanborið við nærri fimm milljóna evra tap á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í árshlutauppgjöri Eimskips.

Tekjur flutningafyrirtækisins á fyrsta ársfjórðungi jukust um 11,5% milli ára og námu 180 milljónum evra eða um 27,3 milljörðum króna. Í tilkynningu flutningafélagsins segir að tekjustýringarverkefni höfðu jákvæð áhrif á tekjur og þá hækkuðu tekjur í flutningsmiðlun m.a. vegna verðhækkana flutningsbirgja á alþjóða skipaflutningamörkuðum.

Rekstrarkostnaður jókst um 7,6% milli ára og var um 164 milljónir evra á fyrstu þremur mánuðum ársins. Kostnaður vegna flutningsbirgja hækkaði verulega, m.a. í for- og áframflutningi og sjóflutningi vegna stöðunnar á alþjóða skipaflutningamörkuðum. Olíukostnaður lækkaði milli tímabilanna vegna lægra olíuverðs og minni olíunotkunar.  

EBITDA hagnaður tímabilsins var rúmlega sjö milljónum evra hærri en á sama tíma í fyrra og nam 16,3 milljónum evra. EBITDA framlegð var 9,0% samanborið við 5,8% árið 2020. Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, rekur aukna framlegð til mikillar áherslu á tekjustýringu og betri nýtingar gámasiglingakerfinu ásamt því enn gætir áhrifa hagræðingarverkefna síðasta árs.

„Ég er ánægður með rekstrarárangur fyrsta ársfjórðungs þar sem afkoma í gámasiglingakerfinu jókst, sérstaklega undir lok fjórðungsins,“ segir Vilhelm. „Það var sterk magnaukning í Trans-Atlantic flutningum á fjórðungnum þar sem við, að hluta til, nutum góðs af ójafnvægi á alþjóða skipaflutningamörkuðum þar sem eftirspurn hefur verið meiri en afkastageta í siglingum yfir hafið.“

„Á móti kemur að staðan á þessum mörkuðum hefur meðal annars valdið hækkunum á leiguverði skipa og þar af leiðandi aukið kostnað í gámasiglingakerfinu okkar. Reksturinn í Færeyjum hefur verið krefjandi vegna áhrifa Brexit og COVID-19, sérstaklega í útflutningi á ferskum fiski, en þróunin í lok fjórðungsins var jákvæð og hefur sú þróun haldið áfram inn í annan ársfjórðung,“ segir Vilhelm.

Innleiða stefnu um vernd uppljóstrara

Hann tekur einnig fram að flutningafyrirtækið vinni áfram að þriggja ára aðgerðaráætlun um sjálfbærni og unnið er að innleiðingu ýmissa nýrra stefna, þar á meðal stefnu um vernd uppljóstrara. Vilhelm segir jákvæða þróun vera í umhverfisuppgjöri og að fyrirtækið hafi flokkað 12% meira af úrgangi í mældri starfsemi en á sama fjórðungi í fyrra.

„EBITDA afkomuspá ársins 2021 er áfram á bilinu 68-77 milljónir evra. Það hefur verið gott magn í gámasiglingakerfinu það sem af er núverandi ársfjórðungi og flutningsmiðlun gengur áfram vel, en við erum meðvituð um óstöðugt ástand á alþjóða skipaflutningamörkuðum og munum halda áfram að fylgjast náið með þróun þeirra,“ segir Vilhelm að lokum.