Eimskip hefur keypt alla hluti í Norðufrakt ehf á Siglufirði en fyrir átti félagið 52% hlut, segir í fréttatilkynningu. Seljendur eru Árni Helgason á Ólafsfirði og Ásmundur H. Einarsson á Siglufirði.

Ásmundur stofnaði fyrirtækið fyrir átta árum og hefur stýrt uppbyggingu þess og verið framkvæmdastjóri frá upphafi. Norðurfrakt sinnti upphaflega einkum þjónustu við Siglufjörð og nágrenni auk tilfallandi verkefna fyrir Eimskip á Norðurlandi. Í lok árs 2005 var flutningarekstur Árna Helgasonar á Ólafsfirði færður inn í Norðurfrakt og samhliða varð Árni Helgason hluthafi í félaginu.

Hjá Norðurfrakt vinna nú 19 starfsmenn og félagið rekur vöruafgreiðslur á Siglufirði og Ólafsfirði. Rekstur Norðurfraktar mun á næstu vikum verða samþættur inn í rekstur Eimskips og mun starfsemin heyra beint undir svæðisskrifstofu Eimskips á Akureyri en Einar Eyland er svæðisstjóri yfir þeirri starfsemi.

Samhliða þessum breytingum mun Ásmundur H. Einarsson framkvæmdastjóri Norðurfraktar taka við nýju starfi rekstrarstjóra hjá Eimskip á Norðurlandi.

?Undanfarin ár höfum við átt mjög gott og farsælt samstarf með Eimskip. Norðurfrakt hefur blómstrað mjög og er það helst okkar frábæra starfsfólki að þakka, en það hefur unnið mikið og gott starf í uppbyggingu fyrirtækisins. Í dag eru miklar áherslubreytingar hjá Eimskip og ég hlakka mjög mikið til að taka þátt í þeim áhugaverðu verkefnum sem eru framundan," segir Ásmundur.