Breska vöruflutningafyrirtækið Stobart Group hefur keypt hluta af starfsemi Innovate, sem er kæli- og frystigeymslufyrirtækiðsem Eimskip [ HFEIM ] afskrifaði nýverið að fullu fyrir 74,1 milljón evra, að því er erlendir fjölmiðlar segja frá.

Halldór Kristmannsson, framkvæmdastjóri Samskiptasviðs Eimskips segir sölu eigna Innovate i samræmi vid það sem áður hafi verið tilkynnt. „Fyrr i þessum mánuði tilkynntum við um afskrift  á eignarhlut okkar i Innovate og allar eignir félagsins voru settar í sölumeðferð. Eins og við höfum einnig sagt, þá hefur sala þessarra eigna engin fjárhagsleg áhrif á Eimskip en allar eignasölur fyrirtækisins eru gegn yfirtöku skulda Innovate," segir hann.

Innovate var brotið upp í þrjá hluta fyrir sölumeðferðina, samkvæmt upplýsingum frá Eimskipum.

Í frétt The press and Journal segir að Stobart Group muni meðal annars taka yfir 250 vörubíla og 350 tengivagna, auk vöruhúsa sem tengjast rekstrinum.

Í frétt Supplychainexec segir að fyrirtækið muni taka yfir töluvert af samningum Innovate, þar með talið vörugeymslurekstur fyrir Nestle.

Stobart Group væntir að  velta Innovate verði um 100 milljónir punda á ári eða um 15,6 milljarðar króna og að tekjur muni aukast á fyrsta ári, undir þeirra stjórn.

Búist er við að Stobart taki við um 1.300 starfmönnum Innovate.