Eimskip hefur tekið við rekstri Vestmanneyjaferjunnar Herjólfs frá og með áramótum. Við breytinguna verður tekið í notkun nýtt bókunar- og greiðslukerfi auk afsláttarfyrirkomulags, eftir því sem segir í tilkynningu frá Eimskip. Þá tekur ný siglingaáætlun gildi en ferðum hefur verið fjölgað til muna. Herjólfur mun sigla tvær ferðir fram og til baka á hverjum degi allt árið með þeirri undantekningu að ferðum verður fækkað á vissum hátíðisdögum.