*

miðvikudagur, 20. október 2021
Innlent 20. nóvember 2018 17:06

Ein flóknasta sameining Íslandssögunnar

Verði af kaupum Icelandair á Wow air er afar ósennilegt að þau verði rekin sem aðskilin félög samkvæmt greiningu Landsbankans.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Gangi kaupin Icelandair á Wow air eftir tekur við „ein flóknasta sameining Íslandssögunnar“, samkvæmt nýútkominni greiningu hagfræðideildar Landsbankans á kaupum Icelandair á Wow air sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum. Hagfræðideildin telur litlar líkur að til lengri tíma litið verði Icelandair og Wow air rekin í sitt hvoru lagi, gangi kaup Icelandair á Wow air í gegn. „Við tekur gríðarlega flókin sameining sem mun fela í sér endurskipulagningu flugleiða og flotans, minnkun á framboði og fækkun starfsfólks til að ná fram samlegð,“ segir í greiningunni. 

Kaupin velta á samþykki Samkeppniseftirlitsins, hluthafa Icelandair og niðurstöðum áreiðanleikakönnunar á Wow air. Hagfræðideildin telur að töluverð óvissa ríki um hvert skref fyrir sig. „Það eina sem við vitum er að hvort sem af kaupunum verður eða ekki eru allar líkur á að á næsta ári verði framboðsminnkun á flugi til og frá Íslandi,“ segir í greiningunni.

Ef ekki verður að kaupunum virðist óumflýjanlegt að Wow air hætti rekstri finnist ekki annar kaupandi sem hefði töluvert rask í framboði á flugi í för með sér. Ótal möguleikar séu í stöðunni fyrir uppbyggingu og viðskiptamódel nýs félags gangi kaupin eftir. Hins vegar sé  ólíklegt að Icelandair verði rekið sem „premium“ flugfélag og Wow air sem lágjaldaldarmur Icelandair. Rekstrarlíkön flugfélaganna hafi verið að færast nær hvort öðru undanfarin ár. Þá sé reynslan af sérstökum lággjaldaarmi flugfélaga erlendis afar misjöfn.

Snúið verkefni eftirlitsins

Í greiningunni er einnig bent á að Samkeppniseftirlitið standi frammi fyrir nokkuð snúnu verkefni. Félögin séu einungis með 3-4% markaðshlutdeild á flugi yfir Norður-Atlantshafið, en með um 80% markaðshlutdeild á flugi til og frá Íslandi. Fordæmi í öðrum ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins síðustu ár gefi hins vegar ekki tilefni til bjartsýni fyrir samþykki. Það sem flugfélögin hljóti að horfa til sé að WOW hverfa af markaðnum óháð því af hvort kaupunum verði og að sameiningin sé þjóðhagslega mikilvæg. 

Afkoman þarf að batna

Boðað hefur verið til hluthafafundar hjá Icelandair þann 30. nóvember. Á hluthafafundinum verða kaupin á Wow air tekin fyrir ásamt tillögum um að auka hlutafé Icelandair um 334 milljónir króna að nafnverði vegna kaupa Icelandair á WOW og heimild um að gefa út allt að 625 milljónir króna nýrra hluta samkvæmt sem eru um 57 milljónir dollara virði miðað við núverandi markaðsvirði hluta í Icelandair.

Þá segir að bæta þurfi afkomu félaganna til að standa undir núverandi gengi hluta í Icelandair. Hefðbundin flugfélög séu verðmetin á um 4-6 sinnum rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði og afskriftir og leigukostnað (EBITDAR) en arðsöm lággjaldaflugfélög á 6-8 sinnum EBITDAR. Icelandair sé í dag metið á 8 til 8,7 sinnum EBITDAR. Til að standa undir eðlilegri arðsemi og gengi hluta í Icelandair þyrfti EBITDAR sameinaðs félags að vera um 20% eða yfir 400 milljónir dollara ef horft er fram hjá hótelum Icelandair sem eru í söluferl. Til samanburðar er áætlað EBITDAR félaganna tveggja um 173 milljónir dollara á þessu ári án hótela Icelandair.

Í greiningunni er einnig bent á að eiginfjárhlutfall sameinaðs félags verði 18% miðað við nýjustu fjárhagsupplýsingar um Wow air á öðrum ársfjórðungi og Icelandair á þriðja ársfjórðungi og nýjar reikningsskilareglur, IRFS 16, sem taka gildi í byrjun næsta árs. Heildareignir sameinaðs félags næmu 2,4 milljörðum dollarra og eigið fé um 434 milljónum dollara. Takist að minnka fjármagn sem bundið er í sameinuðu félagi um 10% gæti dugað að bæta EBITDAR félagsins um 260-360 milljónir dollara til að réttlæta núverandi verðmat á Icelandair miðað við 4-5 sinnum EBTIDAR verðlagningu eftir tvö ár.

Stikkorð: Icelandair Wow air