Hlutabréfamarkaðir lækkuðu vestanhafs í dag, síðasta dag janúar mánaðar en að sögn Bloomberg fréttaveitunnar er þetta einn versti janúar mánuður á hlutabréfamörkuðum í tæp 40 ár.

Líkt og í gær eru afkomutölur félaga fyrir fjóra ársfjórðung 2008 að valda fjárfestum áhyggjum. Í síðustu viku og fyrri part þessarar viku leit út fyrir afkomutölurnar yrðu ekki jafn slæmar og búist hafði verið við en nú hefur komið á daginn að svartsýnustu spár voru ekki svo fjarri því sem reyndist svo að lokum, að sögn Bloomberg.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 2,1%, Dow Jones um 1,8% og S&P 500 um 2,3% og hefur þannig lækkað nú fjórar vikur í röð sem hefur ekki gerst frá því í júlí síðastliðnum.

Þá lækkaði S&P 500 um 8,6% í janúar og slær þar með tæplega 40 ára gamalt met en í janúar 1970 lækkaði vísitalan um 7,6% á einum mánuði.

Verð á hráolíu hækkaði skyndilega undir lok dags en hafði lækkað jafnt og þétt frá opnun markaða í morgun. Við lok markaða kostaði tunnan af hráolíu 41,56 Bandaríkjadali og hafði þá hækkað um 0,3%.