Dag hvern aka þúsundir milli höfuðborgarsvæðisins og Hveragerðis. Á ferðinni er nær óhjákvæmilegt að taka ekki eftir Hellisheiðarvirkjun. Skammt frá virkjuninni stendur aftur á móti rúmlega 500 fermetra bygging sem við fyrstu sýn lætur lítið fyrir sér fara. Starfsemin þar hefur ekkert með rafmagnsframleiðslu að gera heldur geymir stórhuga áform um byltingu í matvælaframleiðslu.

Mannvirkið hýsir nýsköpunarfyrirtækið Algaennovation en fyrir verkefninu fer framkvæmdastjórinn Kristinn Hafliðason, alltaf kallaður Kiddi. Fyrirtækið ræktar smáþörunga og framleiðir úr þeim vörur en verksmiðja þess var tekin í gagnið á haustmánuðum síðasta árs. Nái áætlanir stjórnenda fram að ganga er viðbúið að fermetrafjöldinn muni þrjátíufaldast á næstu fimm árum og framleiðslan með.

„Hugmyndin bak við félagið er að vera einn af mögulegum lyklum mannkynsins til að leysa fæðuvanda heimsins. Mannfjöldaspár gera ráð fyrir því að mannkynið muni telja um tíu milljarða árið 2050 og það liggur því fyrir að við þurfum að framleiða meira af mat,“ segir Kiddi.

Flestir kannast við að hafa lært um ljóstillífun einhvern tímann á skólagöngu okkar. Plöntur og þörungar fanga orku frá sólinni, auk koltvísýrings, og nýta hana til að framleiða lífmassa og súrefni. Plantan sjálf er síðan ýmist nýtt beint til manneldis, til eldis dýra til átu eða í aðrar matvörur. Mannskepnan þarf fæðuna til að lifa en meðal þess sem við þurfum eru nokkrar tegundir amínósýra sem við getum hvergi fengið nema úr próteinum. Vandinn sem blasir hins vegar við matvælaframleiðslu heimsins er að ræktanlegt land og vatn eru takmarkaðar auðlindir.

„Eins og mannkynið ræktar í dag þá erum við ekki að nýta landið og vatnið nægilega vel. Það þarf til að mynda um 150 þúsund lítra af vatni til að framleiða eitt kíló af próteini úr nautakjöti og 9 þúsund lítra til að framleiða sama magn próteina úr sojabaunum. Í kerfunum okkar þurfum við aðeins sextán lítra af vatni til að framleiða kíló af próteini og getum framleitt 1.000 tonn af próteini á einum hektara lands. Til samanburðar færðu um 80 kíló af nautakjötspróteini á hektara og 670 kíló úr soja,“ segir Kiddi.

Coca Cola í stað Ís-Kóla

Staðsetningin í bakgarði Hellisheiðarvirkjunar var ekki valin af handahófi heldur var framleiðslan smíðuð utan um þær aðstæður sem þar bjóðast. Frá virkjuninni fær verksmiðjan afl fyrir tæki og ljós, koltvísýring fyrir ljóstillífunina og bæði heitt og kalt vatn til að tryggja að hitastig sé ávallt rétt.

„Hugmyndin með verkefninu er í raun venjuleg ljóstillífun nema við tökum landbúnaðinn út og setjum hátækni inn í staðinn. Til að byrja með tökum við sólina út fyrir sviga og nýtum LED-ljós til að gera þörungunum kleift að ljóstillífa. Það eitt tvöfaldar nýtnina í kerfinu, við getum framleitt allan sólarhringinn því við erum ekki háð gangi sólar. Hluti af hitaveituvatni Stór-Reykjavíkursvæðisins er framleitt á Hellisheiði, ON dælir upp gríðarlegu magni af köldu vatni og notar glatvarma virkjunarinnar til að hita það upp og sendir það til Reykjavíkur. Við tengjumst þessu kerfi, fáum að tappa okkur inn á leiðsluna, nýtum kalda vatnið til að kæla þörungana, ljósin og loftið, og dælum því síðan aftur inn á leiðsluna. Vatnið hefur því aðeins viðkomu hjá okkur. Eina aukaafurðin af framleiðslunni, sem við neyðumst til að skila út í náttúruna, er því súrefni,“ segir Kiddi.

Afleiðingin er sú að sótspor framleiðslunnar er í raun neikvætt, það er þörungarnir binda meiri koltvísýring heldur en losnar við að framleiða rafmagnið sem verksmiðjan þarf. Uppskerutímabilið er allan sólarhringinn, alla daga ársins en uppskeran út úr kerfinu á sér stað jafn óðum og þörungarnir eru tilbúnir. Algaennovation hefur gert japönsku hugmyndina „Mottainai“ (waste not) að sinni. Ef við tökum Spirulina sem dæmi, þá er litarefni dregið úr þörunginum, en það má nýta í matvæli, því næst próteinið nýtt í manneldi og eftir standa þá kolvetni. „Kolvetnin má nýta í dýrafóður til að nýta alla afurðina upp til agna er draumurinn að brugga bjór úr þeim,“ segir Kiddi.

Framleiðsla á smáþörungum er ekki ný af nálinni en hún hefur átt sér stað um árabil í Bandaríkjunum, Ástralíu, Evrópu og Kína. Afurðirnar eru síðan nýttar, t.d. sem fæða í klakstöðvum fiskeldis og í ýmis fæðubótarefni. Reginmunur er hins vegar á framleiðslu Algaennovation og meginþorra samkeppnisaðilanna þar sem ræktun íslenska félagsins á sér stað við stýrðar aðstæður allan ársins hring.

„Hér getum við í raun valið að framleiða hvern þann smáþörung sem markaðurinn kallar eftir. Við byrjuðum á nannochloropsis en ástæðan fyrir því er einföld. Stofnendur félagsins hafa áratuga reynslu af ræktun þörungsins og hægt er að nýta hann í einfalda vöru sem ekki er ætluð til manneldis og kallar því ekki á sérstök leyfi. Sú vara er í raun þörungurinn eins og hann kemur úr kerfunum og er notaður sem fæði í klakstöðvum fiskeldis. Þessi vara hefur verið notuð af klakstöðvum í tæp þrjátíu ár. Við höfum það umfram keppinautana að við erum ekki háð sólinni og getum stjórnað öllum aðstæðum og því eru gæðin hjá okkur stöðug. Þetta er kjörin fyrsta vara Algaennovation, þarfnast nánast enga áframvinnslu, af meiri gæðum en samkeppnisaðilarnir á markaði en á sama verði. Við erum í raun og veru að labba inn í bæjarfélag, sem hefur alla tíð þurft að drekka Ís-Kóla og Sól-Kóla, og við seljum þeim Coca Cola,“ segir Kiddi og hlær.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .