Það kemur á óvart hve stjórnarliðar mæta allri gagnrýni á Icesavsamninginn sinn af mikilli forherðingu, óöryggi og ósvífni. Það bendir ótvírætt til að þeir séu ekki alltof öruggir með sig; hvorki með stöðu sína í Icesavemálinu né heldur með málið yfirleitt.

Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrv. ráðherra í pistli á vef AMX í dag þar sem hann fjallar um viðbrögð við ummælum frakkans Alain Lipetz um Icesave málið.

„Ofsafengin viðbrögð við umdeildri ákvörðun forseta Íslands eru auðvitað glöggt dæmi um þetta og nú hefur annað dæmi bæst við,“ segir Einar K. í pistli sínum.

„Vinstri grænn þingmaður af Evrópuþinginu, Frakkinn Alain Lipetz, tók málstað okkar Íslendinga og sagði kröfur Hollendinga og Breta byggðar á sandi. Þingmaðurinn róttæki fékk góðar undirtektir við þessi sjónarmið; nema auðvitað frá stjórnarliðum hér á landi. Þeir brugðust ekki sínum vonda málstað frekar en fyrri daginn og notuðu þekkta baráttutækni sína. Réðust á þingmanninn sjálfan og sökuðu hann um vanþekkingu og lygar. Freistuðu þess sem sagt að gera hann ótrúverðugan.“

Einar K. segir að Lipetz hafi verið brugðið um þekkingarskort og sagður skrökva til um aðkomu sinni að lagasetningu á evrópska þinginu.

Sjá pistil Einars K. í heild sinni.