Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sótti í síðustu viku sumarfund matvælaráðherra Norðurlandanna. Fundurinn var í Växjö í Svíþjóð á.

Á fundinum var meðal annars rætt um rekjanleika og umhverfismerkingar á sjávarafurðum úr fiski sem veiddur er á sjálfbæran hátt. Í fréttatilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu segir að miklar umræður hafi átt sér stað í Svíþjóð um þorsk.

Náttúrverndarsamtök þar í landi hafa gefið út bæklinga þar sem mælt er gegn kaupum á þorski. Innkaupaaðilar hafa í framhaldinu hætt kaupum á þorskafurðum í stórum stíl, þrátt fyrir að stór hluti þorskafla sé veiddur á sjálfbæran hátt.

Einar K. Guðfinnsson benti á þá vinnu sem fer fram á vettvangi Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna vegna umhverfismerkinga og Norðurlandaþjóðirnar hafa verið virkir þátttakendur í.

Einnig var rætt um sjálfbæra nýtingu selastofna og áhrif loftslagsbreytinga á frumframleiðslugreinar.