Einn banki öðrum fremur var seljandi hlutabréfa í gær, segir í Morgunpunktum IFS greiningar. Í greiningunni segir að það megi velta fyrir sér hvort þar á bæ sé verið að losa stöður og innleysa hagnað eða hvort menn séu að skortselja markaðinn. Samkvæmt heimildum VB.is er sá banki sem þarna er vísað til Arion banki.

IFS segir að bjarnarhamur hafi lagst yfir íslenska hlutabréfamarkaðinn í gær. Eins og VB.is greindi frá lækkuðu öll félögin á aðallista yfir daginn, um 0,8 – 2,9%. Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,95%. Hagar, Marel og Össur lækkuðu mest.

„Ástæður söluáhuga voru ekki augljósar en nokkrar hugsanlegar og kannski samþættar. Í fyrsta lagi var eftir lokun markaða í gær að hefjast óvenjustór uppgjörshrina á kauphöllinni. Fjárfestar eru búnir að sjá neikvæð viðbrögð markaðar við sumum þeim uppgjörum sem þegar er búið að birta, nánar tiltekið hjá Icelandair og Marel, og telja etv. hyggilegra nú að selja fyrir uppgjörin. Í annan stað birti greining Arion banka á föstudag það mat sitt að nettóframboð hlutabréfa og skuldabréfa á árinu yrði meira en nettó eftirspurnin, svo munaði 25 milljörðum króna. Af 90 milljarða króna nettóframboði sá bankinn fyrir sér að 68 milljarðar króna yrðu hlutabréf. Í þriðja lagi voru vangaveltur um að sala kjölfestufjárfesta í Högum á bróðurparti eignar sinnar, sem tilkynnt var um á mánudag, hefði aukið mönnum hroll,“ segir í IFS greiningu. Sala kjölfestufjárfestanna séu fremur neikvæðar fréttir fyrir Haga en jákvæðar, en menn þurfi ekki að undrast að umbreytinga-fjárfestar finni sér ný verkefni eftir þrjú ár um borð.