Frá og með deginum í dag fara viðskipti með verðbréf sem skráð eru í kauphöllunum í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Íslandi, Finnlandi, Eistlandi og Lettlandi fram í einu og sama viðskiptakerfinu. Þetta leiðir af því að OMX kauphallirnar í Finnlandi, Eistlandi og Lettlandi tóku nú í morgun upp SAXESS-viðskiptakerfið. Þetta skref þýðir að kauphallirnar á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum koma fram sem einn markaður að þessu leyti.

NOREX-samstarfið (e. NOREX Alliance), er fyrst kauphallarbandalaga í heiminum til að taka upp sameiginlegt viðskiptakerfi fyrir hlutabréf og samræma reglur fyrir aðild og viðskipti í öllum kauphöllunum. Þessi tilkynning staðfestir að upphaflegu markmiði um að skapa einn samræmdan markað fyrir verðbréf á Norðurlöndunum hefur verið náð.

?Við erum ánægð með að framtíðarsýn NOREX um einn sameiginlegan markað hefur ræst og þar með höfum við aukið þjónustu okkar við markaðsaðila umtalsvert. Við munum nú einblína á að þróa markaðina á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum áfram til að auka enn hagkvæmni þeirra. NOREX stendur fyrir samræmdan verðbréfamarkað á ákveðnu landsvæði við hlið annarra mikilvægra markaða í Evrópu," segir Jukka Ruuska, formaður NOREX.

?Nú þegar allar kauphallirnar nota sama viðskiptakerfið er ljóst að NOREX er afar mikilvægur samstarfsvettvangur kauphallanna á svæðinu. Við erum samkeppnishæfari sem einn markaður í Norður-Evrópu og munum áfram vinna að frekari framþróun. Við stefnum að því að gera verðbréfaviðskipti enn hagkvæmari og skilvirkari í framtíðinni. Þetta er góður dagur í sögu NOREX," segir Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallarinnar og varaformaður NOREX.

Hlutabréf 876 félaga eru skráð í NOREX-kauphöllunum sem eru sjö talsins. Markaðsvirði allra skráðra félaga innan NOREX er u.þ.b. 50.000 milljarðar króna miðað við lok ágústmánaðar.