Allir nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabankans voru sammála um að hækka þyrfti stýrivexti um að minnsta kosti 0,5 prósentur á síðasta vaxtaákvörðunarfundi. Umræðan á fundinum snerist um hvort hækka ætti vexti um 0,5 eða 0,75 prósentur. Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar sem birt var í dag. Sú ákvörðun var tekin á fundinum að hækka vextina um 0,5 prósentustig.

Í fundargerðinni segir að helstu rök fyrir því að hækka vexti meira en um 0,5 prósentur hafi verið þau að slík hækkun myndi einungis færa taumhald peningastefnunnar á þann stað sem það var fyrir ákvörðun nefndarinnar um hækkun vaxta í júní. Grunnspá Seðlabankans hafi bent til að áhrif kjarasamninganna á verðbólgu yrðu í takt við það sem nefndin hafi talið þá, en þá hafði hún talið einsýnt að herða yrði taumhaldið enn frekar á næstu fundum.

Þá var einnig talað um hækkun verðbólguvæntinga milli funda, sem benti til þess að enn vantaði á að verðbólguvæntingar hefðu kjölfestu í verðbólgumarkmiðinu. Hætta væri á því að taumhald peningastefnunnar væri aukið of lítið og of seint.

Seðlabankastjóri lagði til að stýrivextir bankans yrðu hækkaðir um 0,5 prósentur. Fjórir nefndarmenn greiddu atkvæði með þessari tillögu, en einn nefndarmaður greiddi atkvæði gegn tillögunni og vildi hækka vexti um 0,75 prósentur. Ekki er greint frá því hvaða nefndarmaður það er í fundargerðinni, en það verður gert í næsta ársriti bankans.

Næsti vaxtaákvörðunarfundur Seðlabankans er 30. september næstkomandi.