Einhvern tímann hefur verið tala um að hógværð sé dyggð og það á sjálfsagt við í tilfelli rússneska viðskiptajöfursins Sergei Polonsky.

Fyrir nokkru var Polonsky staðinn að því að segja opinberlega að allir þeir sem ekki næðu að græða einn milljarð Bandaríkjadala yfir ævina væru það sem kallast á góðri íslensku, lúserar.

Þeir sem tekið hafa orð Polonsky til sín og eru enn að reyna að vinna sér inn fyrsta milljarðinn geta þó andað léttar því þessi orð lét Polonsky falla áður áður en viðskiptaveldi hans, sem að mestu leyti byggðist upp á rússneska eignarhaldsfélaginu Mirax Group, hrundi eftir að rússneskir dómsstólar létu frysta eignir hans vegna vanskila á láni að verðmæti 242 milljóna dala.

Polonsky kennir hinni alþjóðlegu fjármálakreppu um vandræði sín en að sögn BBC bað hann fjölmiðlamenn, seint á síðasta ári, að gera ekki of mikið úr kreppunni þar sem hún yrði ekki langvarandi.

„Mirax er nú í ólgusjó efnahagskreppunnar,“ skrifar Polonsky á vefsíðu sínu.

Þá greinir Polonsky jafnframt frá því að síðastliðið ár hafi félagi hans ekki tekist að fá eitt einasta lán fyrir fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum (fasteignir hafa hingað til verið sérsvið hans). Þá greinir hann einnig frá því að síðastliðinn mánuð hafi ekki einn fermetri í eigu félagsins selst og illa hafi gengið að innheimta greiðslur af því sem seldist áður.

Reuters fréttastofan fjallar einnig um málið en þar kemur fram að Mirax mun nú hætta öllum framkvæmdum og verður að öllum líkindum tekið til gjaldþrotaskipta innan skamms þar sem lítið útlit er fyrir að nauðasamningar náist né félagið nái að endurfjármagna sig.