Friðrik Þór Snorrason tók við sem forstjóri Reiknistofu bankanna árið 2011 en fyrir þann tíma hafði fyrirtækið m.a. átt lykilþátt í að búa til þrjá nýja banka yfir nótt á tímum efnahagshrunsins. RB er í meirihlutaeigu Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka en árið 2012 gerði fyrirtækið sátt við Samkeppniseftirlitið þar sem reynt var að tryggja að önnur upplýsingatæknifyrirtæki geti boðið fjármálafyrirtækjum þjónustu sína í samkeppni við RB. Um þessar mundir stendur RB frammi fyrir gríðarstórum breytingum sem munu auka hagræði verulega í íslenskri bankastarfsemi að sögn Friðriks.

Spurður að því hvernig starfsemi RB hefur þróast á síðastliðnum árum segir Friðrik að hún hafi tekið mjög miklum breytingum. „RB var fram til 2011 óskipt sameign og í raun ósýnileg bakvinnsla fyrir flesta nema kannski tæknimenn í bönkunum,“ segir hann. „Síðan hefur starfsemin þróast hratt í þjónustufyrirtæki sem er ekki bara að sinna tæknilegu hliðunum heldur líka viðskiptahliðum banka og annarra fjármálafyrirtækja. Hér er búið að endurnýja öll innri þjónustukerfi, öll þekkingarkerfi og byrjað að nútímavæða grunnkerfin með innleiðingu á stöðlum og alþjóðlegum lausnum.

Í dag er t.d. í gangi eitt stærsta tækniverkefni sem hefur verið farið í á Íslandi. Verið er að endurnýja innlána- og greiðslukerfi RB sem hátt í hundrað manns taka þátt í. Samhliða því er verið að búa til það sem við köllum þjónustutorg og gagnatorg sem er tengilag fyrir fjármálamarkaðinn við öll fjármálakerfi sem RB hefur þróað og rekur. Það gerir fólki kleift að flýta fyrir nýþróun í framtíðinni. Þetta er sveigjanlegt kerfi og opið þannig að það eru ekki bara við sem getum þróað nýjar lausnir í þessu kerfi heldur einnig bankarnir sjálfir eða samstarfsaðilar þeirra eða fyrirtæki úti í bæ sem hafa áhuga á að þróa lausn ofan á kerfin frá RB og bjóða á markaðinn. Það er því verið að opna markaðinn með þessu og það er einstakt að það sé verið að gera slíkt fyrir heilt bankakerfi.“

Nánar er rætt við Friðrik í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .