Lyfjaver nýtt apótek að Suðurlandsbraut 22 í Reykjavík á morgun, mánudaginn 28. janúar. Nýja apótekið er í sama húsi og eldra apótek en aðstaða er öll mun stærri og betri bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk. Nýtt apótek Lyfjavers er án efa eitt það tæknivæddasta í Evrópu því þar hafa verið settur upp mjög öflugir APOSTORE 3000 róbótar þeir fyrstu sinnar tegundar á Íslandi og er búnaðurinn sérhannaður fyrir apótekið og afgreiðslu á lyfjapakkningum fyrir dvalar- og hjúkrunarheimili. Það var Björgvin Sigurðsson viðskiptaráðherra sem gangsetti róbótana á fundi með fjölmiðlamönnum í dag.  Róbótarnir taka við lyfjapakkningum, raða þeim upp í hillur í klefanum, sem þeir vinna í, og taka einnig til pantanir samkvæmt lyfseðli. Umráðasvæði róbótanna er 20 m2   rúmar það 22.000 pakkningar. Viðskiptavinir geta fylgst með á flatskjá hvernig róbótarnir vinna.

Fyrir er Lyfjaver með öfluga tölvustýrða lyfjaskömmtun, bæði fyrir einstaklinga og stofnanir, og var fyrirtækið  brautryðjandi í slíkri lyfjaskömmtun hér á landi og  fyrst til að taka slíka tækni í notkun árið 1999.

Allt frá því apótek Lyfjavers var opnað í byrjun árs 2005 hefur Lyfjaver oftast verið með lægsta verðið í verðkönnunum meðal apóteka hér á landi. Magnús Már Steinþórsson framkvæmdastjóri segir að aukin tæknivæðing sé liður í hagræðingu sem á að tryggja að Lyfjaver geti haldið áfram að bjóða neytendum lægsta lyfjaverðið í landinu. Að sögn Magnúsar var óhjákvæmilegt að stækka afgreiðslu apóteksins vegna mikillar aðsóknar sem hafi vaxið jafnt og þétt undanfarin misseri. „Það var svo komið að við áttum orðið í erfiðleikum með að anna eftirspurninni í því  húsnæði sem við vorum í og því er aukið rými og betri aðstaða kærkomin. Með meiri vélvæðingu getum við jafnframt boðið upp á enn lægra lyfjaverð, hraðari og öruggari afgreiðslu en áður,“ segir Magnús.

Hann segir að með því að taka róbóta í þjónustu apóteksins sé Lyfjaver ennfremur að búa sig undir að geta tekið aftur upp póstsendingu lyfja þegar lögum verður breytt og tekinn af allur vafi um að slík dreifing sé leyfileg. Í byrjun árs 2005 bauð fyrirtækið upp á fría heimsendingu lyfja um allt land en sú þjónusta var stöðvuð af Lyfjastofnun eftir að borist hafði kæra frá samkeppnisaðila. Var talið að þessi þjónusta rúmaðist ekki innan gildandi lyfjalaga.