Alcoa á Íslandi mun á næstu dögum eða vikum draga sig út úr því ferli sem miðar að uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að ferlið hafi nú þegar tekið of langan tíma og sé þolinmæði félagsins nú á þrotum.

Kornið sem fyllti mælinn var, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, nýleg umræða um rannsóknaboranir Landsvirkjunar í Gjástykki.

Orkustofnun hafði sem kunnugt er heimilað Landsvirkjun að hefja tilraunaborarnir á svæðinu í sumar en Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, lýsti því yfir í fréttum á Stöð 2 í síðustu viku að Landsvirkjun myndi ekki nýta sér leyfið enda sé það yfirlýst stefna Landsvirkjunar að vinna í sátt við stjórnvöld. Þar vísaði Hörður til stefnu ríkisstjórnarinnar að friðlýsa Gjástykki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir Tölublöð.