Misvísandi fregnir berast um meinta lánalínu frá rússneskum stjórnvöldum í erlendum fjölmiðlum.

Þannig hefur Dow Jones fréttaveitan eftir aðstoðarfjármálaráðherra Rússlands, Dmitry Pankin að það hafi engin formleg beiðni komið frá íslenskum stjórnvöldum um lán, engar samningaviðræður hafnar og engar ákvarðanir hafa verið teknar um lánið sjálft.

Rússneska sendiráðið neitaði að tjá sig um lánafyrirgreiðslu til íslenska ríkisins þegar Viðskiptablaðið leitaði eftir því fyrir skömmu.

Talsmaður þess segir að sendiráðið muni ekki tjá sig að svo stöddu.

Fyrir skömmu barst tilkynning frá Seðlabankanum þar sem tekið var fram að viðræður milli Rússlands og Íslands um fjármálaleg atriði lánsins muni hefjast innan fárra daga.

Þá leitaði Dow Jones til Seðlabanka Íslands. Stefán Stefánsson, talsmaður Seðlabanka Íslands, fullyrðir við fréttaveituna að rússnesk stjórnvöld hafi veitt bankanum 4 milljarða evra lán.

Stefán gat ekki svarað þeirri spurningu hvort að lánið komi frá rússneska seðlabankanum eða stjórnvöldum. Von er á yfirlýsingu frá Seðlabanka Íslands.