„Við höfum ekki gert samkomulag um eitt né neitt," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, og vísar til fyrirhugaðrar yfirferðar stjórnarflokkanna á eftirlaunalögunum svonefndu í sumar.

Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, upplýsti á Alþingi í gærkvöld að formenn stjórnarflokkanna hefðu beint þeirri ósk til formanna annarra stjórnmálaflokka á Alþingi að þeir ynnu saman að viðunandi lausn í eftirlaunamálinu.

„Hafa þeir tekið vel í þá málaleitan. Ég geri ráð fyrir því að við munum í sumar vinna sameiginlega að þingmáli sem kæmi þá fram á næsta þingi og af því leiðir að ekki kemur fram þingmál frá ríkisstjórninni nú í vor," sagði Geir um boðaðar breytingar á eftirlaunalögunum.

Steingrímur segist hafa móttekið beiðnina. Hann geti hins vegar ekki svarað neinu fyrr en hann hafi rætt við sinn þingflokk. Hann tekur þó fram að ef ríkisstjórnin vilji afgreiða mál sem hún boði í stjórnarsáttmálanum þá standi ekki á Vinstri grænum. „Við erum tilbúin að fara í breytingar á þessu máli," segir hann og bætir því við að ríkisstjórnin hafi hins vegar ekki komið sér saman um neitt í þessum efnum.

Þá segir hann aumkunarvert að fylgjast með því hvernig Samfylkingin skríði í skjól yfirlýsingar forsætisráðherra frá því í gær. Vísar hann þar til yfirlýsingar þingflokks Samfylkingarinnar frá því í morgun þar sem þingmennirnir fagna samkomulagi formanna stjórnarflokkanna um endurskoðun eftirlaunalaganna.

Skylda flokkanna að setjast yfir málið

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, segir eðlilegt að formenn allra flokka komi að málinu í ljósi þess að þáverandi formenn, fyrir fimm árum, hefðu landað því. „Það er skylda okkar að setjast yfir málið í sumar og leita leiða til að ná ásættanlegri leið," segir hann.

Guðni bætir því við að það sé reyndar tímaskekkja að þingmenn ákvarði sjálfir sín kjör og þar með eftirlaun. „Ég hallast æ meir að því að það sé langbest fyrir þingið að þetta fari allt saman í kjararáð. Við munum fara yfir það í sumar."

Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, segist aldrei hafa skorast undan að ræða þessi mál opinskátt. Hann muni aldrei aftur taka þátt í því að afgreiða svona mál aftur í myrkri fyrir jól eða í pressu fyrir þinglok.