Samherji mun ekki selja hlut sinn í norska sjávarútvegsfyrirtækinu Nergård. Þetta staðfestir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, í samtali við Viðskiptablaðið. Til stóð að norsku félögin Norsk Sjømat og Nergård myndu sameinast og um leið vera skráð í kauphöll Osló. Samherji á 39,9% hlut í Nergård og hugðist upphaflega selja sinn hlut við samrunann fyrir 19-22 milljarða króna.

Ekki verður af skráningu félagsins vegna óvissu og ókyrrðar á fjármálamörkuðum – hið sameinaða félag hefði orðið næststærsta sjávarútvegsfélag Noregs. Þorsteinn segir að vendingin hafi engin áhrif á getu Samherja til að standa skil á fyrirhuguðum yfirtökum félagsins. Samherji hefur nýlega boðað yfirtökutilboð í Eimskip og tilkynnt um helmingskaup á bandaríska félaginu Aquanor Marketing.

Að sögn Þorsteins liggur ekki fyrir að hefja samrunaviðræður Nergård og Norsk Sjømat á ný. „Maður verður bara að sjá hvernig þetta þróast. Við erum ekkert að hugsa um samruna núna.“ Yfirtökutilboð Samherja á Eimskip nemur um 22 milljörðum króna. Að sögn Þorsteins er yfirtökugengið 175 krónur en þegar þetta er skrifað er markaðsverð hvers hlutabréfs í Eimskip 190 krónur.