Jaroslaw Kaczynsky, forsætisráðherra Póllands, hefur gripið fyrir hendur menntamálaráðherra landsins og þar með tryggt að nemendum þar í landi verði áfram skylt að lesa verk eftir meistara á borð við Franz Kafka og Fjodors Dostojevskí.

Í síðustu viku tilkynnti Roman Giertych, menntamálaráðherra, að hann hygðist taka verk eftir höfunda eins og Kafka, Dostojevskí, Göethe og Josef Conrad úr kennsluskrá grunnskóla og leggja þess í stað áherslu á verk þjóðlegra eða þá kaþólskra höfunda á Henryk Sienkiewicz. Með þessu vildi hann efla innrætingu þjóðerniskenndar meðal grunnskólanema. Fram kemur í frétt þýska tímaritsins Der Spiegel að mikil reiði hafi brotist út vegna áformanna og gilti einu hvort um var að ræða menningarvita eða foreldra skólabarna. Þau voru sögð minna á þá ritskoðun sem var stunduð meðan kommúnistar voru við völd í landinu.

Nú hefur forsætisráðherrann brugðist við og tilkynnt að ekkert verði af þessu. Í útvarpsviðtali í byrjun vikunnar lýsti hann yfir að hin sígildu verk meistaranna yrði áfram á námskránni og hafi áform menntamálaráðherrans verið tilraun til fyndni þá hafi hún mistekist.

Giertych menntamálaráðherra tilheyrir stjórnmálaaflinu Samband pólskra fjölskyldna sem berst ákaft fyrir varðveislu íhaldssamra gilda - reyndar með svo miklum ákafa að mörgum þykir nóg um. Ráðherrann er umdeildur og hefur vakið upp reiði meðal margra fyrir að vilja algjört fóstureyðingarbann í landinu og fyrir að ræða um nauðsyn þess að uppræta menningaráhrif samkynhneigðra í grunnskólum landsins.