*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 25. október 2020 15:04

Ekki áhyggjur af sjálfbærni skulda

Fjármálaráð hefur að óbreyttu ekki áhyggjur af sjálfbærni mikillar opinberrar skuldsetningar næstu ár.

Júlíus Þór Halldórsson
Gunnar Haraldsson hagfræðingur er formaður fjármálaráðs, en auk þess eiga í því sæti þau Axel Hall, Ásgeir Brynjar Torfason og Þórhildur Hansdóttir Jetzek
Haraldur Guðjónsson

Fjármálaráð hefur ekki áhyggjur af sjálfbærni þeirrar auknu skuldsetningar, sem liggur fyrir ríkissjóði og sveitarfélögum næsta ár, eins og sakir standa. Hún muni ráðast af samspili vaxta, hagvaxtar og afkomu. Þetta kemur fram í áliti ráðsins á þingsályktunartillögu til fjármálaáætlunar 2021-2025.

Bein áhrif skuldsetningar koma fram í greiðslubyrði, sem auk höfuðstóls ræðst af vaxtakjörum og lengd lánanna. Í fjármálaáætlun er aukinn lánstími ríkisskulda boðaður, sem ráðið tekur vel í.

Stærsti áhrifaþáttur greiðslubyrði opinberra skulda er þó vafalaust lægra vaxtastig en áður hefur þekkst á íslenskum fjármálamarkaði. Lækkun stýrivaxta úr 4% í 1% síðastliðið ár er í áliti fjármálaráðs sögð miklu máli skipta.

Stóra spurningin er varðar horfur í skuldamálum ríkisins næstu árin er hagvöxtur. Í áliti fjármálaráðs er bent á að skuldir sem hlutfall landsframleiðslu geti farið lækkandi jafnvel þótt afkoma opinbers rekstrar sé neikvæð, hækki teljari jöfnunnar (VLF) hraðar en nefnarinn (skuldir).

Þannig gerir fjármálaáætlun ráð fyrir óbreyttu skuldahlutfalli milli áranna 2024 og 2025, þrátt fyrir 118 milljarða króna hækkun skulda, en í Þjóðhagsspá Hagstofunnar er gert ráð fyrir að hagvöxtur taki við sér strax á næsta ári og nemi 3,9%, en fari lækkandi eftir það og endi í 2,5% árin 2024 og 2025. Um þetta ríkir þó eins og flestir vita afar mikil óvissa.

Ekki það sama hallarekstur og hallarekstur
Afkoma opinbers rekstrar mun svo að lokum eðli máls samkvæmt spila sinn þátt í þróun ríkisskulda, og verði hagvöxtur ekki nægur til að vinna niður hlutfallið að ráði, mun það auka þrýsting á þeim vettvangi. Fjármálaráð gerir í áliti sínu greinarmun á því hvort um undirliggjandi hallarekstur er að ræða eða fjárfestingar.

Hallarekstur vegna almennra rekstrarútgjalda umfram tekjur sé ekki sjálfbær til lengdar, en geti átt rétt á sér tímabundið við vissar aðstæður. Fjárfestingar séu hins vegar annars eðlis, enda komi þær til með að bæta afkomuna síðar meir. Mikil fræðileg umræða hefur átt sér stað síðustu ár um fjárfestingar og hlutverk þeirra í viðreisn hagkerfa í kjölfar áfalla.

Flest lönd hyggjast nú forðast þau mistök að draga of snemma úr opinberum útgjöldum, líkt og í kjölfar fjármálakrísunnar, að því er fram kemur í áliti fjármálaráðs. Þess í stað er hugsunin að örva hagvöxt með auknum fjárfestingum og „vaxa þannig út úr“ kreppunni.

Í greinargerð með fjármálaáætlun er kveðið við svipaðan tón. Vanmat á beinum áhrifum ríkisfjármála á efnahagsumsvif í kjölfar hrunsins hafi leitt til aðhalds í opinberum rekstri í því skyni að auka tiltrú markaðsaðila til lengri tíma.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.