Íslendingar þreytast seint á því að kalla sig bókaþjóð. Umræða jafnt hér á landi sem erlendis virðist þrátt fyrir það vart gefa tilefni til bjartsýni fyrir bókaútgefendur sem sífellt þurfa að keppa við þá afþreyingu sem fylgir til dæmis mikilli þróun í snjalltækni undanfarin ár. Íslenskir bókaútgefendur virðast flestir vera sammála um að sífellt þrengi að bókaútgáfunni en þar að auki segja þau íslensk stjórnvöld stuðla að mjög erfiðu rekstrarumhverfi fyrir fyrirtækin þvert á það sem þekkist í öðrum löndum.

Rafbókin hefur aldrei náð flugi

Dögg Hjaltalín keypti bókaútgáfuna Sölku fyrir rúmu ári og segist hún vera bjartsýn fyrir framtíðinni. Þá segist hún litlar áhyggjur hafa af samkeppni við rafbækur. „Ég tel að sala í rafbókum hafi náð jafnvægi en salan á rafbókum á Íslandi hefur aldrei náð neinum hæðum, það er helst í skáldsögum sem leysa kiljurnar af hendi, kennslubókum og viðskiptabókum og öðru slíku. Sölutölur á rafbókum erlendis margfölduðust milli ára með tilkomu lesbretta og lestrar í farsímum en að undförnu hefur salan staðið í stað þannig að markaðurinn virðist vera kominn í jafnvægi,“ útskýrir Dögg.

Hún viðurkennir þó að Íslendingar versli væntanlega mun meira af erlendum bókum á rafbókaformi. Dögg segir að um 50% veltu af útgáfunnar eigi rætur að rekja til bóksölu í desembermánuði og sé nóvember talinn með þá hækki það hlutfall upp í tvo þriðju af veltunni. Hún segir dreifinguna þó farna að verða meiri yfir aðra mánuði. „Við höfum lagt mikið upp úr því að vera með bækur sem seljast allt árið í kring, eins og matreiðslubækur, almennar handbækur og barnabækur. Þá hefur salan einnig dreifst nokkuð með ferðamannabókunum sem seljast vel í júlí, júní og ágúst sem áður voru frekar dræmir mánuðir í sölu.“

Ekki atvinnugrein sem safnar hagnaði

Páll Valsson, útgáfustjóri Bjarts, segir alla útgefendur sammála um að rekstrarumhverfi bókaútgáfunn ar verði erfiðara ár frá ári. Margt spili þar inn í, m.a. minnkandi lestur, skattlagning á bækur, minni fjölmiðlaumfjöllun um bækur og fleira. Aðspurður segist hann vona að yfirvofandi vinstri stjórn muni leggja sitt á vogarskálarnar til að bæta stöðu bókaútgáfunnar. „Innanborðs eru náttúrlega gamlir útgefendur, bóksalar og fólk sem hefur komið nálægt bókaútgáfu sem er upplífgandi. Að mínu mati erum við í dag á ákveðnum tímamótum þar sem við þurfum raunverulega að spyrja okkur hvort við viljum hafa bókaútgáfu í landinu. Íslenski bókamarkaðurinn er sá minnsti í heimi og það er útaf fyrir sig kraftaverk en hann lifir helst á þeirri íslensku hefð að gefa bækur í jólagjöf. Um leið og hún hverfur þá er úti um íslenska bókaútgáfu. Sem dæmi er jólabókasalan meira en helmingur af veltu fyrirtækisins. Þetta er ekki atvinnugrein sem safnar hagnaði. Hagnist menn eitthvað þá eru þeir fjármunir notaðir í útgáfu næsta árs,“ útskýrir Páll.

Leiðrétting: Í úttekt Viðskiptablaðsins sem gefið var út 24. nóvember sl. var fjallað um aðgreinda ársreikninga útgáfufyrirtækjanna Bjarts og Veraldar. Um var að ræða mistök þar sem bæði forlögin eru í dag rekin á einni og sömu kennitölunni og hafa verið það frá því í apríl 2007. Viðskiptablaðið biðst velvirðingar á mistökunum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn tölublöð.