Hagar hafa viljað efla fyrirtækið með kaupum á meðal annars Lyfju og Olís. Kaupin á Lyfju gengu ekki eftir vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins, sem núna hefur kallað eftir skoðunum almennings á fyrirhuguðum kaupum Haga á Olís.

„Ég er bjartsýnn á þá niðurstöðu. Miðað við fyrri niðurstöður samkeppnisyfirvalda Hæstaréttar eru Hagar og Olís að öllu leyti á sitthvorum markaðnum. Einn stór þáttur í því er að ég tel fráleitt að við séum í markaðsráðandi stöðu eins og við vorum skilgreind í eftir mjólkurmálið svokallaða árið 2005 því staðan er gjörbreytt. Allar meginforsendur fyrir þeirri ákvörðun eiga ekki lengur við. Olís er mjög traust og vel rekið fyrirtæki og við teljum okkur geta komið betur að smásölurekstri og boðið betra vöruúrval á lægra verði.“

Samkeppniseftirlitið kallar eftir skoðunum almennings á kaupum Haga á Olís. „Já, ég þekki ekki til þess að þetta hafi verið gert áður og mér finnst þetta mjög sérstakt.“

Litlar verslanir í kortunum

Fólk virðist í auknum mæli kalla eftir endurkomu kaupmannsins á horninu í einhverri mynd, þá til dæmis í formi minni lágvöruverðsverslana í nærumhverfi. Hvernig blasir það við ykkur?

„Verslun þróast auðvitað eftir því hvað viðskiptavinurinn velur og hann velur á hverjum degi. Verslun lokar ekki nema ef kúnninn hefur ákveðið að láta loka henni. Markaðurinn hverju sinni endurspeglar það. Það er hlutverk okkar að mæta þeim óskum og mæta óskum okkar viðskiptavina. Nýja Bónusverslunin í Skipholti er í þessum anda og í takt við skipulag borgarinnar, sem gerir ráð fyrir kaupmanninum á horninu í einhverri mynd. Það eru þá verslanir sem eru innan við 1.000 fermetrar, sem verslunin í Skipholtinu er.

Ég sé ekki fyrir mér víða í borginni að það verði fleiri risaverslanir. Vöxturinn verður í 1.000 fermetra verslunum eða minni. Reykjavík er auðvitað með sína stefnu en svo eru nágrannasveitarfélögin auðvitað með sína stefnu. Og svo er kosið á fjögurra ára fresti. En núna er þetta stefnan, sem ég held að fari mjög vel að óskum mjög margra. Við erum að vinna að sambærilegri hugmynd í Stekkjabakka sem rúmast innan þessa skipulags og er unnin í samvinnu við Reykjavíkurborg. Þetta er þróunin.“

Ekki er langt liðið síðan Finnur steig inn í nýtt hlutverk sem afi þegar elsti sonur hans eignaðist dóttur. „Það var svolítið sérstök tilfinning, ég get alveg játað það. Það er stutt síðan ég var sjálfur að heimsækja afa og ömmu. Ég var mjög hændur að afa mínum og alnafna. Þetta minnir mann á hvað þetta er fljótt að líða og hversu mikilvægt það er að gefa sér tíma í það sem skiptir máli.“ Og það er þetta sem skiptir máli þegar öllu er á botninn hvolft?

„Já, annað er aukaatriði.“