Skýrar heimildir verða að vera fyrir því að takmarka frjálsa för fólks að landi en samkvæmt því er engin heimild til að refsa fólki sem ákveður að fara inn á Geysissvæðið án þess að greiða gjald vegna þess til Landeigendafélagsins Geysir ehf. Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Sigrúnu Ágústsdóttur, sviðsstjóra hjá Umhverfisstofnun, að ákvæði um frjálsa för fólks sé rótgróin í íslenskum rétti. Ekki sé þó búið að ákveða hvernig brugðist verði við yrði gjaldtaka á Geysissvæðinu að veruleika.

Eins og fram kom í gær áformar Landeigendafélagið Geysir ehf. að rukka gjald inn á Geysissvæðið næsta sumar. Gjaldið yrði innan við eitt þúsund krónur. Forsvarsmenn félagsins segja fjármagnið nýtt til uppbyggingar á Geysissvæðinu. Ríkið á hins vegar 25% í svæðinu.

Í Morgunblaðinu í dag segir að félagið geti ekki ákveðið einhliða að hefja gjaldtöku að Geysissvæðinu, að mati fjármálaráðuneytis og Umhverfisstofnunar.