Atvinnuleysi í júlímánuði mældist 2,1% og hefur það ekki mælst jafnlítið í júlímánuði síðan árið 2007, þegar það mældist 1,8%.

4.300 manns í atvinnuleit

Kemur þetta fram í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands, samkvæmt þeim voru að jafnaði 205.400 manns á aldrinum 16-74 ára á vinnumarkaði í júlí 2016.

Jafngildir það 86,2% atvinnuþátttöku, en af þeim voru 201.100 manns starfandi og 4.300 manns án vinnu og í atvinnuleit. Því er hlutfall starfandi um 84,4% af mannfjölda og hlutfall atvinnulausra 2,1%.

Aukin atvinnuþátttaka

Ef borin er saman júlímánuður í ár og í fyrra, sést að atvinnuþátttakan hefur aukist um 1,9 prósentustig, en fjöldi starfandi hefur aukist um 11.600 manns. Hlutfall mannfjöldans sem starfaði hækkaði hins vegar um 2,6 prósentustig.

Hlutfall atvinnulausra lækkaði um 0,9 prósentustig og fækkaði þeim um 1.600 manns.

Árstíðarbundnar tölur

Þar sem íslenskur vinnumarkaður sveiflast reglulega milli mánaða vegna árstíðabundinna þátta birtir hagstofan einnig árstíðarleiðréttar tölur, en samkvæmt þeim voru 197.400 manns á vinnumarkaði í júlí 2016, jafngildir það 83% atvinnuþátttöku, sem er 0,3% hærri en hún var í júní.

Hlutfall atvinnulausra samkvæmt árstíðarleiðréttum tölum var þá 2,9% í júlí en það er hækkun úr 2,5% í júnímánuði.