„Umræðan um niðurfellingu skyldu til að leita undanþágu vegna samstarfs fyrirtækja er á algjörum villigötum,“ skrifar Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, á Facebook-síðu sína í dag og vísar í ummæli Gylfa Magnússonar, dósent við Háskóla Íslands og formann bankaráðs Seðlabankans, í fjölmiðlum að undanförnu.

„Lætur Gylfi að því liggja að verði undanþága vegna samstarfs lögfest veiti það keppinautum heimild til að hittast og ráða ráðum sínum um verð, skiptingu markaða o.þ.h. Þetta er auðvitað af og frá.“

Ásta segir undanþágurnar hafa ekkert með það að gera að fyrirtækjum sé gefið opið spil á að brjóta lög og grafa undan samkeppni. „Breytingin felst í því að fyrirtæki hafi tök á því að hafa afmarkað samstarf t.d. um rekstur dreifikerfis, bakendakerfis, þjónustukerfis (t.d. Auðkenni), sameinast um flutninga svo eitthvað sé nefnt, neytendum til hagsbóta. Fyrirtækjum er áfram skylt að tilkynna samstarfið.“

Ásta segir núverandi fyrirkomulagi gallað og tiltekur raunverulegt dæmi því til stuðnings.

„Nýlegt dæmi er Vodafone og Nova sem sóttu um undanþágu vegna samstarfs um rekstur heilsteypts landsdekkandi dreifikerfis fyrir farsíma og netþjónustu og var það mál inni á borði eftirlitsins í eitt ár og þrjá mánuði. Fimmtán mánaða bið fyrir neytendur - en með breytingunni hefði sá tími styst til mikilla muna,“ skrifar Ásta og segir að með fyrirhugaða lagabreytingu afa það í för með sér að fyrirtæki muni ekki þurfa að bíða svo mánuðum, jafnvel árum skiptir, eftir því að hefja samstarf.

„Af hverju eiga íslensk fyrirtæki og íslenskir neytendur að búa við fyrirkomulag sem hamlar framgangi markaða – þegar í Evrópu er löngu búið breyta ferlinu og afnema þetta undanþáguákvæði?“