Álfheiður Ingadóttir, formaður viðskiptanefndar þingsins, segir að þær breytingar sem lagðar eru fram í Seðlabankafrumvarpi forsætisráðherra séu tiltölulega smávægilegar og að þær eigi ekki að þurfa að bera út um allan heim.

Meirihluti nefndarinnar hafnaði í gær boði Evrópska seðlabankans um að veita frumvarpinu umsögn. Sjálfstæðismenn voru í minnihluta í nefndinni þar sem þeir vildu að bankinn fengi að veita umsögn.

„Það stendur ekki venja til þess á Alþingi að kalla eftir umsögnum frá útlöndum. Ég þekki ekki fordæmi þess," segir Álfheiður og bendir enn fremur á að þegar Seðlabankalögin frá árinu 2001 hafi verið í undirbúningi - en þá hafi verið gerðar grundvallarbreytingar á  bankanum - hafi ekki hvarflað að nokkrum manni að leita út í heim eftir umsögnum.

Bréfið frá Evrópska seðlabankanum var sent sendiráði Íslendinga í Brussel. Þaðan var erindið sent til utanríkisráðuneytisins, þaðan til forsætisráðuneytisins og loks til viðskiptanefndar sem hefur málið til umfjöllunar.

Í bréfinu kom fram, segir Álfheiður, að Evrópski seðlabankinn sé tilbúinn til, sé þess óskað, að veita umsögn um málið. Hún segist ekki vita hvers vegna bankinn hafi sent bréfið.

Seðlabankinn fær frest fram á mánudag

Álfheiður segist ekki geta kveðið upp úr um það hvenær Seðlabankafrumvarpið verði afgreitt úr nefnd.

Frumvarpið verði til umfjöllunar í nefndinni á mánudagsmorgun en síðan verði reglulegur fundir í nefndinni á þriðjudag. Þá ætti að liggja fyrir, segir hún, hvenær hægt verði að afgreiða frumvarpið úr nefnd. Eftir það fer frumvarpið til annarrar umræðu og síðan til þriðju og síðustu umræðu.

Nefndin hefur óskað eftir umsögnum um frumvarpið frá um tíu til fimmtán aðilum. Umsögnum átti að skila í gær, föstudag. Seðlabankinn óskaði eftir því fyrir helgi að hann fengi þriggja vikna umsagnarfrest. Álfheiður segir að á það hafi ekki verið fallist. Þess í stað hafi bankinn fengið frest til að skila umsögninni á mánudag.