Búast má við að söluferli Íslandsbanka – ef af því verður – muni taka mörg ár, auk þess sem bæði rekstur bankans og aðstæður í efnahagslífinu almennt þurfa að batna nokkuð áður en æskilegt þykir að hefja það. Þetta kemur fram í nýútgefinni ítarlegri skýrslu Bankasýslunnar um málið, sem gerir nú ráð fyrir að ferlið muni taka lengri tíma en áður hafði verið áætlað.

Í skýrslunni eru styrking og stöðugleiki efnahagslífsins, ásættanlegt virðismat fjármálafyrirtækja, og áhugi og bolmagn fjárfesta sögð forsendur þess að æskilegt sé að hefja sölumeðferð bankans.

Á sama tíma er það þó sagt mikilvægt að undirbúningur fyrir söluna hefjist sem fyrst og sveigjanleiki í sölumeðferð tryggður, „þannig að hámarka megi endurheimtur og ávöxtun ríkissjóðs vegna eignarhlutarins,“ en arðsemi bankans var aðeins 4,8% á síðasta ári, talsvert undir arðsemiskröfu ríkisins.

Mikilvægt sé að hún fari stigvaxandi á næstu misserum, til að auka megi söluandvirði hlutarins. Í því skyni geti ríkið meðal annars lækkað opinber gjöld á borð við bankaskattinn og iðgjald í innstæðutryggingasjóð.

Á móti verði að horfa til þess að auknar afskriftir útlána vegna samdráttar í atvinnulífinu og aukinnar samkeppni á fjármálamarkaði geti þrýst arðseminni enn frekar niður. en nú er orðið nokkuð ljóst að í skarpan samdrátt stefnir, þótt vonir standi til þess að hann verði skammvinnur. Því kunni það að taka bankann lengri tíma en upphaflega var áætlað að ná viðunandi arðsemi.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .