Ekki liggur fyrir hversu langan tíma það mun taka að leita gagna um ætlað samráð í höfuðstöðvum Samskipa í Reykjavík. Eins og greint var frá fyrr í dag komu starfsmenn eftirlitsins á skrifstofur fyrirtækisins í morgun og lögðu fram heimild til húsleitar . Fram kemur í tilkynningu frá Samskipum að starfsfólk vinni nú að því að afla umbeðinna gagna í fullu samráði við starfsmenn Samkeppniseftirlitsins.

Á sama tíma fer fram húsleit á vegum Samkeppniseftirlitsins hjá Eimskipi og dótturfyrirtækis þess, TVG Zimsen.

Hvorki hefur náðst í Ásbjörn Gíslason, forstjóra Samskipa, né Gylfa Sigfússon, forstjóra Eimskips, vegna málsins í dag.

Húsleitirnar eru gerðar vegna rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á ætluðum brotum á 10. og 11. gr. samkeppnislaga. Í lögunum er m.a. kveðið á um bann við samráði fyrirtækja, svo sem um verð eða verðlag, álagningu, afslætti eða önnur viðskiptakjör. Þungar refsingar eru við brotum af þessu tagi. Sektir geta numið allt að 10% af veltu fyrirtækjanna og gæti numið allt að 8,5 milljörðum króna auk þess sem stjórnendur fyrirtækjanna sem uppvísir eru að brotum á samkeppnislögum geta átt yfir höfði sér allt að sex ára dóm.