Tilskipun Evrópusambandsins (93/13/EBE), sem tekin var upp í apríl árið 1993 og fjallar um óréttmæta skilmála í neytendasamningum, leggur ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu í samningum.

Þetta er ein meginniðurstaðan í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins, sem birt var á vefsíðu dómstólsins á fimmtudaginn í síðustu viku. Næsta skref í málinu er að innan skamms verða málsaðilar boðaðir á fund dómara þar sem þeim gefst kostur á að leggja fram frekari gögn.

Aðalmeðferð í málinu verður líklega öðru hvoru megin við áramótin. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er búist við því að Héraðsdómur felli ekki dóm fyrr en eftir áramót. Enn fremur er nánast öruggt að málið mun fara fyrir Hæstarétt, sama hver dómsniðurstaðan verður í héraði. Líklegt er að dómur í Hæstarétti falli ekki fyrr en næsta vor eða sumar. Það er því enn töluvert í að niðurstaða fáist í þetta mál.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .