Rekstrarfélag Sarps sf. hefur samið við Þekkingu hf. um smíði á nýrri útgáfu af upplýsingakerfinu  Sarpi sem er sérsmíðað kerfi fyrir menningarsögulegar upplýsingar hérlendis, m.a. muni, myndir, fornleifar, hús, þjóðhætt og örnefni. Sarpurinn á sér rúmlega 10 ára sögu og hafa um 40 söfn og stofnanir tekið hann í noktun, m.a. vel flest byggðasöfn landsins, Þjóðminjasafn Íslands, Húsafriðunarnefnd ríkisins og Örnefnasafn Árnastofnunar segir í tilkynningu.

Rúmlega 900 þúsund færslur eru nú í gagnasafninu. Með tilkomu nýja kerfisins verður almenningi jafnframt veittur vefaðgangur að safninu.

Kerfið smíðað í .net umhverfi

Kerfið verður byggt á SQL gagnagrunni  og .net forritun. Verkefnið er mjög umfangsmikið. Reiknað er með að því ljúki í lok þessa árs. Frosti F. Jóhannsson, framkvæmdastjóri Rekstrarfélags Sarps, segir að helsta ástæðan fyrir því að farið var í þetta verkefni sé sú að gamla kerfið hafi ekki uppfyllt þarfir notenda nægilega vel auk þess sem mikilvægt sé að gera gagnasafnið aðgengilegt á internetinu.