Skólamatur er lítið fjölskyldufyrirtæki sem framleiðir máltíðir fyrir grunnskóla, leikskóla, öldrunarheimili og aðrar stofnanir, ásamt því að annast rekstur mötuneyta á Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtækið rekur 22 mötuneyti og afgreiðir um 7.000 hádegismáltíðir og um 500 síðdegishressingar á dag í gegnum þjónustusamninga við sveitarfélög. Um er að ræða þjónustu í Reykjanesbæ, Görðum, Sandgerði, Grindavík, Kópavogi, Garðabæ og Reykjavík, aðallega til grunnskóla. Höfuðstöðvar fyrirtækisins og framleiðslueldhús er í Reykjanesbæ. Starfsmenn fyrirtækisins eru 70 talsins.

„Það hafa allir foreldrar skoðun á þeim mat sem börnum er boðið upp á í skólum,“ segir Fanný S. Axelsdóttir, mannauðs- og samskiptastjóri Skólamatar. „Allir vilja að börnin sín borði hollan og góðan mat. Það hefur átt sér stað mikil vitundarvakning í matarmenningu undanfarin ár. Auknar kröfur eru gerðar um fjölbreytileika í matargerð, næringu og hollustu, sem og neytendaval. Slíkur matur hefur ekki alltaf verið í boði í skólum landsins í gegnum árin og þjónustuframboð okkar kemur til móts við það.“

Forlagað í Reykjanesbæ

Allar máltíðir Skólamatar eru forlagaðar í framleiðslueldhúsi fyrirtækisins í Reykjanesbæ. „Framleiðslukeðjan okkar er stutt. Súpur, grautar og sósur eru fulleldaðar í eldhúsi Skólamatar og sent í mötuneyti í hitakössum en annar matur er eldaður frá grunni, snöggkældur og svo fer lokaeldun fram í mötuneytunum sjálfum,“ segir Fanný. Skólamatur býður upp á tvo rétti í hverri máltíð á hverjum degi; aðalrétt og léttan hliðarrétt (heitur grænmetisréttur. Síðan er boðið upp á úrval grænmetis og ávaxta í meðlætisbar á hverjum degi. Þá er sjálfsskömmtun einnig í boði, þar sem nemendurnir fá að velja sjálfir á diskinn.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um sameiningu tveggja rótgróinna fyrirtækja.
  • Dagur B. Eggertsson lofar ríflega sex þúsund íbúðum í Reykjavík á næstu fimm árum.
  • Rannsóknargjald Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er mun hærra en sambærileg gjöld annars staðar á landinu.
  • Forstjóri byggingaverktakafyrirtækis segist geta byggt ódýrt en það skorti til þess lóðir í úthverfum.
  • Framkvæmdastjóri TourDesk segir að næsta skref sé að nema land á erlendum mörkuðum.
  • Gloria Álvarez segir popúlíska leiðtoga ala á því að almenningur líti á sig sem fórnarlömb.
  • Ítarleg úttekt á Eurovision-hagkerfinu.
  • Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, er í ítarlegu viðtali þar sem hún segir tvöfalda skráningu bankans koma vel til greina.
  • Skyrgerðin í Hveragerði verður opnuð að nýju í vor.
  • Nýkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins er tekinn tali.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem fjallar um eiturpenna Kára.
  • Óðinn skrifar um kosti og galla krónunnar.