Við gos undir jökli er líklegt að öskustrókurinn myndi hafa umtalsverð áhrif á flugumferð segir á vefsíðu Veðurstofu Íslands.

Langtíma skjálfta- og GPS mælingar gefa til kynna að aukin virkni sé í norðvestanverðum Vatnajökli, undir Bárðarbungu. Telja sérfræðingar að allt eins megi búast við eldgosi fljótlega. Gosið myndi valda flóðum í jökulám og  að öllum líkindum myndi gos á þessum slóðum hafa áhrif á flugumferð.

Seinustu sjö ár hefur virkni í Bárðarbungu aukist jafnt og þétt, sem og í sprungusveimnum norður af Bárðarbungu. Í kjölfar gossins í Grímsvötnum í maí 2011 datt virknin tímabundið niður, en fór fljótlega að aukast aftur og hefur nú náð svipaðri virkni og rétt fyrir Grímsvatnagosið.