Nú þegar markaðir á Wall Street hafa verið opnir í umklukkustund hafa helstu hlutabréfavísitölur lækkað töluvert.

Þannig hefur Nasdaq vísitalan lækkað um 4,8%, Dow Jones um 4,2% og Standard & Poor‘s 500 vísitalan um 4,9%.

Að sögn Reuters fréttastofunnar gera fjárfestar ráð fyrir minni framleiðslu á næsta ári og má rekja lækkanir dagsins til þess.

Þá var smáverslun í upphafi jólavertíðarinnar (um helgina) afar dræm og dregur það enn úr bjartsýni fjárfesta.

Þá hafa markaðir einnig lækkað nokkuð í Evrópu það sem af er degi.

Þannig hefur FTSEurofirst 300 vísitalan lækkað um 3% en Reuters fréttastofan segir engar sérstakar skýringar vera á lækkun hlutabréfamarkaða.

Þó segir viðmælandi Reuters að ljóst sé að fjárfestar séu svartsýnir á framhaldið og telja að lítið þokist í því að leysa lausafjárkrísuna.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan lækkað um 4,5% það sem af er degi, í Amsterdam hefur AEX vísitalan lækkað um 5,7% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 5,6%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan lækkað um 4,7% og í Sviss hefur SMI vísitalan lækkað um 4,3%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 2,9%, í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan lækkað um 4,2% og í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 6,9%.