Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í apríl sl. er Icelandair það félag sem ber að mestu uppi Icelandair Group samstæðuna og er félagið umfangsmesta dótturfélag Icelandair Group hvort sem litið er til tekna eða hagnaðar.

Ársreikningar dótturfélaganna fyrir árið 2011 liggja nú fyrir og í raun hefur ekki orðið mikil breyting á samsetningu samstæðunnar sem er í sjálfu sér eðlilegt miðað við umfang og starfsemi dótturfélaganna.

Icelandair hagnaðist um tvo milljarða króna á árinu 2011, samanborið við 4 milljarða króna árið áður. Rekstrartekjur félagsins jukust um 10 milljarða króna á árinu sem að mestu skýrist af auknum flutningstekjum. Það sem fyrst vekur athygli er stóraukinn eldsneytiskostnaður félagsins sem hækkar um 7,2 milljarða króna á milli ára og útskýrir að mestu leyti 12,5 milljarða króna aukinn rekstrarkostnað félagsins. Launakostnaður jókst um 1,7 milljarða króna á milli ára sem skýrist af fjölgun starfa hjá félaginu auk breyttra kjarasamninga.

Rétt er að taka fram að árið 2010 var besta rekstrarár í sögu félagsins en félagið náði ekki að fylgja því eftir á síðasta ári. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins bendir þó margt til þess að árið í ár verði jafn gott ef ekki betra en árið 2010 en vísbendingar um það má m.a. finna í hálfsársuppgjöri samstæðunnar á þessu ári.

Nánar er fjallað um ársreikninga dótturfélaga Icelandair Group í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.