Staðgreiðsluverð í rafrænum viðskiptum á hráolíu var í morgun skráð á 39.53 dollara tunnan hjá NYMEX í Bandaríkjunum sem er 1,22% lækkun frá síðustu skráningu. Hjá Brent Spot markaði var verðið 35,49 dollarar sem er 6,85% lækkun. Virðist verðið því tekið að falla á ný eftir lítilsháttar hækkun undanfarna daga. Hér á landi hefur eldsneytisverð haldist nær óbreytt frá því í byrjun desember og engar ákvarðanir eru um lækkanir.

Hugi Hreiðarsson markaðsstjóri hjá Atlantsolíu segir engar ákvarðanir hafa verið teknar varðandi lækkun eldsneytisverðs. Það ráðist líka mikið af stöðu krónunnar hverju sinni. Olíuverði hér hafi lækkað strax í kjölfar 25% hækkunar krónunnar, en þau áhrif hafi gengið að nokkru til baka. Sagði Hugi að stöðugt sé þó verið að skoða verðlagninguna.

“Það er þó búið að hjálpa þjóðinni gríðarlega hvað heimsmarkaðsverðið á olíunni hefur lækkað á einu ári. Nú í desember hefði bensínlítrinn verið um 80 krónum dýrari vegna stöðu krónunnar ef heimsmarkaðsverðið hefði verið það sama og í desember 2007.” Segir Hugi það líka jákvætt að lækkun olíuverðsins hérlendis hafi haft áhrif til lækkunar á vísitölu neysluverðs sem þýðir þá minni verðbólgu og minni hækkanir lána en ella.

Verð á olíutunnunni í framvikum samningum var þá skráð hjá WTI í morgun á 39,54 dollara, sem var 1,20% lækkun frá fyrra verði. Heimsmarkaðsverð á olíu hefur snarlækkað undanfarna mánuði og um heila 10 dollara tunnan síðan í nóvemberlok.

Sem dæmi um eldsneytisverðið hér á landi var verð á 95 oktana bensíni hjá Atlantsolíu í morgun á 139,80 krónur lítrinn, en 137.80 ef notaður er dælulykill. Verðið á dísilolíunni var 164,20 krónur og 162,20 ef notaður er dælulykill. Orkan er með 139,70 krónur á bensínlítrann og 164,10 á dísilolíulítrann án vildarafslátta. Algengt sjálfsafgreiðsluverð á bensíni hjá Olís var 141,40 og það sama hjá Shell, en 165,80 á dísilolíulítranum.