Dægurverð á 95 oktana bensíni var óbreytt á markaði í Rotterdam í gær og kostaði tonnið 981 dali við lokun markaðar líkt og við lokun á föstudag en þann dag lækkaði tonnið úr 993 dölum, þ.e. um 12 dali. Var lækkunin á föstudag sú fyrsta síðan 11. febrúar sl. en í millitíðinni hafði bensínverð hækkað um 160 dali, úr 833 dölum í 993.

Hvað framvirka samninga með bensín á markaði í New York, svokallaða RBOB-samninga, varðar lækkaði verð á samningum með afhendingu í mars um 1 sent á bandarískt gallon í gær eftir að hafa hækkað mikið í síðustu viku.

Þá lækkaði hráolíuverð lítillega í gær. Tunnan af olíu af Brent-svæðinu í Norðursjó með afhendingu í apríl kostaði 111,8 dali við lokun markaðar og lækkaði um 34 sent en á markaði í New York lækkaði tunnan af olíu frá Texas og Mexíkóflóa (WTI) um tæpan dollar og kostaði 96,97 dali við lokun markaðar. Í síðustu viku hækkaði verð á Brent-olíu um 9,5% og WTI-olían um 13,5%.