Landsnet hefur ráðið Elínu Sigríði Óladóttur í starf samráðsfulltrúa þar sem hún mun meðal annars standa að auknu samtali við hagsmunaðila og halda utan um hagsmuna- og verkefnaráð. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Landsneti.

Um er að ræða nýtt starf sem styður við stefnu Landsnet um upplýsta umræðu og markvisst samtal, þar sem áhersla er lögð á að sátt ríki í samfélaginu um hlutverk Landsnets.

Elín lauk MBA gráðu við Háskóla Íslands, BS í ferðamálafræðum við sama skóla og nam umhverfisfræði við Garðyrkjuskóla ríkisins. Elín hefur víðtæka reynslu af rekstri úr hótelstarfsemi og ferðaþjónustu, hún starfaði einnig fyrir Umhverfisstofnun og hefur tekið þátt í sveitarstjórnarstörfum.

„Það er spennandi að fá tækifæri til að taka þátt í að fylgja eftir nýrri stefnu. Hjá Landsneti er vilji til að eiga frumkvæðið að stöðugu samtali við hagsmunaaðila, samtal sem einkennist af hreinskilni, ábyrgð, víðsýni, gagnkvæmri virðingu og samstarfsvilja. Ég hlakka til að taka þátt í þessari vegferð og er viss um að aukið samtal á eftir að skila okkur meiri sátt um þær framkvæmdir sem framundan eru í uppbyggingu raforkukerfisins,“ segir Elín.