Veitingastaðnum á Hótel Óðinsvé hefur verið lokað vegna breytinga. Nýr, endurnýjaður og stærri veitingastaður verður opnaður um miðjan febrúar, samhliða endurnýjun á móttöku hótelsins, nýrri fundaraðstöðu og nýjum hótelbar.  Kjallarinn fær nýtt hlutverk sem vínkjallari, sem einnig verður hægt að nota fyrir fágaða og öðruvísi fundaraðstöðu.

Veitingastaðurinn hefur borið nafn matreiðslumeistarans Sigga Hall undanfarin ár en þar verður nú breyting á.  Eyþór Rúnarsson, meðlimur íslenska kokkalandsliðsins, verður áfram yfirmatreiðslumeistari staðarins.  Ágúst Guðmundsson hefur verið ráðinn sem veitingastjóri á nýja veitingastaðnum. Siggi Hall skilur við Hótel Óðinsvé eftir farsælan veitingarekstur undanfarin átta ár.

Eigendur Hótel Óðinsvé og nú nýir eigendur veitingastaðarins eru Ellert Finnbogason hótelstjóri, Linda Jóhannsdóttir fjármálastjóri og fyrrum fjármálastjóri Baugs og Heklu, Magnús Stephensen starfandi stjórnarmaður XL Leisure Group, Hannes Hilmarsson forstjóri og aðaleigandi Air Atlanta Icelandic og Jóhann Gunnarsson verktaki. Breytingarnar sem nú er verið að ráðast í eru hannaðar af Telmu Friðriksdóttur arkitekt.