Lilja Mósesdóttir hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um niðurfellingu eftirstöðva námslána við 67 ára aldur. Frumvarpið er byggt á námsaðstoðarkerfinu á hinum Norðurlöndunum. Þar er miðað við að námslán séu greidd upp á 15 til 25 árum. Í Noregi er miðað við að lánið sé uppgreitt þegar lántaki nær 65 ára aldri.

Hér á landi skulduðu 112 einstaklingar 66 ára og eldri Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) 343 milljónir króna í lok síðasta árs. Þetta jafngildir þremur milljónum króna á mann. Meðal uppgreiðslutími hefur verið á bilinu 26,7 til 28,6 ár, samkvæmt upplýsingum frá LÍN.

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

Meðalupphæð við greiðslu námslána hér hefur síðastliðin þrjú ár verið 4,4 til 4,5 milljónir króna.

Í frumvarpinu kemur fram að námsaðstoðarkerfið á hinum Norðurlöndunum er nokkuð frábrugðið því sem hér er. Þar byggist kerfið á samsetningu styrkja og lána.

Í Noregi verða lán í flestum tilvikum að vera uppgreidd á 20 árum og þegar lánþegi verður 65 ára.

Í Danmörku verða lánin að vera endurgreidd á innan við 15 árum. Lánin eru aðeins um þriðjungur af heildaraðstoð sem nemandi fær.

Í Svíþjóð er um 2/3 hlutar aðstoðar í formi lána og meginreglan er sú að endurgreiðslutími þeirra skuli ekki vera lengri en 25 ár. Frá þeirri reglu eru ákveðnar undantekningar og lán afskrifuð við vissan aldur. Þar er einnig að finna aldurstakmörk á veitingu lána sem er 54 ár.

Hér á landi er ekkert sem bannar fólki fyrir aldurs sakir að fara í háskólanám og sækja um námslán.

Lilja bendir á að markmiðið með frumvarpinu sé meðal annars að draga úr spekilekanum svokallaða sem hærri laun á hinum Norðurlöndunum og þar með hraðari niðurgreiðsla námslána veldur.

Á meðal annarra þátta í frumvarpinu er niðurfelling ábyrgðar ábyrgðarmanna þegar þeir nái 67 ára aldri sé lánþegi í fullum skilum við sjóðinn og hafi ábyrgðarmaður gengist í ábyrgð fyrir láni fyrir 54 ára aldur. Þá kveður frumvarpið á um að heimilt verð að fella niður eftirstöðvar á lánþegar að hluta eða heild vegna langvarandi veikinda, fötlunar eða örorku skuldara.

Lagt er til að fest verði í lög sú meginregla að greitt skuli af námslánum þar til skuldin er að fullu greidd eða fram að þeim tíma sem lánþegi fellur frá. Námslán LÍN falla nú þegar niður við andlát viðkomandi.