Laust embætti dómara við Hæstarétt Íslands er auglýst í Lögbirtingablaðinu í dag. Tilefnið er að tveir dómarar, þeir Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson, láta af embætti 1. október næstkomandi.

Eftir stofnun millidómstigs eru dómarar við Hæstarétt sjö talsins. Við brotthvarf dómaranna tveggja úr réttinum verða dómararnir sex og því þarf að skipa einn í þeirra stað.

Til að geta hlotið skipan sem dómari við Hæstarétt þarf einstaklingur að vera minnst 35 ára, hafa íslenskan ríkisborgararétt og hafa nægilega góða heilsu til að geta sinnt embættinu. Þá má dómari ekki hafa hlotið fangelsisdóm eftir að hann varð átján ára né hafa sýnt af sér háttsemi sem getur rýrt það traust sem dómarar verða að hafa.

Þá er það og skilyrði að hafa starfað í minnst þrjú ár sem dómari við héraðsdóm eða Landsrétt, sem lögmaður með málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti, prófessor í lögum, lögreglustjóri, sýslumaður, saksóknari, ráðuneytisstjóri, skrifstofustjóri í ráðuneyti dómsmála eða umboðsmaður Alþingis eða að hafa gegnt öðru slíku starfi sem veitir hliðstæða lögfræðilega reynslu.

Í auglýsingunni kemur fram að umsóknarfrestur sé til 23. september 2019. Til að hraða afgreiðslu málsins er beðið um að umsóknum og fylgigögnum sé skilað með rafrænum hætti, það er á minnislykli eða á netfangið [email protected] . Stefnt er að því að skipa nýjan dómara hið fyrsta eftir að dómnefnd um hæfni umsækjenda um dómaraembætti hefur skilað af sér.

Þeir Viðar Már og Markús láta af embætti sökum aldurs en þeir ná 65 ára aldri á árinu. Þeir eru þó ekki aldursforsetar réttarins því forseti réttarins, Þorgeir Örlygsson, er 67 ára og þá nær eini kvendómari réttarins, Greta Baldursdóttir, 65 ára aldri á árinu.