Innanríkisráðuneytið auglýsir embætti ríkissaksóknara laust til umsóknar. Miðað er við að innanríkisráðherra skipi í embættið frá og með 1. apríl 2011. Nýlega var greint frá því að Valtýr Sigurðsson hættir sem ríkissaksóknari.

Ríkissaksóknari er æðsti handhafi ákæruvalds, en um verkefni og starfsskyldur ríkissaksóknara má finna upplýsingar í lögum og á heimasíðu embættisins, www.rikissaksoknari.is. Laun eru samkvæmt ákvörðun kjararáðs.

„Innanríkisráðherra hefur ákveðið að fela nefnd að fara yfir þær umsóknir sem berast og á nefndin að skila ráðherra rökstuddu áliti á hæfni umsækjenda. Við mat sitt skal nefndin hafa hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem koma fram í 4. gr. reglna nr. 620/2010 um störf dómnefndar sem fjalla um hæfi umsækjenda um dómaraembætti. Niðurstaða nefndarinnar skal byggð á heildstæðu mati á eiginleikum umsækjenda, með tilliti til eðlis starfsins,“ segir í tilkynningu.