Forsætisráðherra hefur, í samræmi við ný lög um Seðlabanka Íslands, auglýst embætti seðlabankastjóra og aðstoðarseðlabankastjóra laus til umsóknar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu en umsóknarfrestur er til 31. mars nk.

Fram kemur í auglýsingu ráðuneytisins að umsækjendur skulu hafa lokið háskólaprófi í hagfræði eða tengdum greinum og búa yfir víðtækri reynslu og þekkingu á fjármálastarfsemi og efnahags- og peningamálum. Gerð er krafa um stjórnunarhæfileika og hæfni í mannlegum samskiptum.

Þá mun forsætisráðherra skipa þriggja manna nefnd er hefur það hlutverk að leggja mat á hæfni umsækjenda um stöðuna. Verður einn nefndarmaður skipaður samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu bankaráðs Seðlabanka Íslands og einn án tilnefningar og er hann formaður nefndarinnar.

Auglýsing um embætti seðlabankastjóra.

Auglýsing um embætti aðstoðarseðlabankastjóra.