Tæknifyrirtækið Endor gerði fyrir nokkrum misserum samning við Atos um afhendingu á gríðarlega mikilli reiknigetu í ofurtölvum til BMW. Samningurinn hleypur á milljörðum. „Við byrjuðum þessa vegferð með Endor í byrjun árs 2016,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, viðskiptaþróunarstjóri og einn stofnenda Endor. Fyrirtækið hefur vaxið hratt og fékk til að mynda verðlaun Hewlett Packard fyrir mestan vöxt samstarfsaðila HP í fyrra.

„Strax í upphafi áttum við í samskiptum við Atos,“ segir Guðbrandur. Atos hafði þá landað stórum samningi við bæverska bílaframleiðandann BMW um útvistun á öllu ofurtölvureikniafli, sem BMW notar meðal annars til að knýja árekstrarprófanahermi. Fram að því hafði BMW verið í viðskiptum við fjölda félaga á þessu sviði. „Í byrjun árs 2016 breyta þeir því og bjóða allt saman út og vilja fá það í formi þjónustu til að einfalda alla ferla hjá sér. Fá fyrirtæki í heiminum hafa burði til að takast á við svona samninga en eitt þeirra er Atos, sem fer í þetta verkefni með Endor.“ Verðmætur langtímasamningur Guðbrandur segir  ofurtölvurnar hýstar á þremur stöðum í heiminum og um 40% reiknigetunnar eru á Íslandi. „Til að geta afhent þetta gerir Atos samning við Endor til að sjá um íslenska hlutann. Til að byrja með vorum við bara samstarfsaðilar á Íslandi en erum nú ábyrgir fyrir þjónustu og uppsetningu í Svíþjóð. Sá armur samningsins lýtur að afhendingu á vélbúnaði og þjónustu, rétt eins og við erum að gera á Íslandi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .