Ekki er búist við því að Boeing 737 MAX flugvélunum fái leyfi til að fljúga á ný frá FAA, bandarískum flugmálayfirvöldum, fyrr en í fyrsta lagi í ágúst, og hugsanlega enn síðar. Boeing hafði haldið í vonina að flugvélarnar, sem kyrrsettar voru í mars í fyrra, fengju grænt ljós til að fljúga á ný um mitt þetta ár.

WSJ hefur eftir heimildarmönnum sínum að heimsfaraldurinn vegna kórónuveirunnar hafi hægt á ferlinu í kringum leyfisveitinguna. Starfsmenn sem unnið hafa af leyfisveitingarferlinu hefur verið skipað að vinna að heiman. Þá hafa ferðabönn dregið úr möguleikum erlendra flugmanna til að prófa flugvélarnar og hægt á upplýsingagjöf til erlendra flugmálayfirvalda. Enn á eftir að samþykkja tvenns konar breytingar á hugbúnaði í sjálfstýringu vélarinnar auk fleiri atriða.

Geta flugfélögin hætt við?

Boeing vantar sárlega lausafé. Félagið hætti fyrr á þessu ári við greiðslu arðs og dróg á 13,8 milljarða dollara lánalínur. Flugvélaframleiðandinn hefur sóst eftir fjárhagsaðstoð frá bandaríska alríkinu og íhugar uppsagnir og frekari hagræðingaraðgerðir.

Það gæti bætt hag félagsins ef afhendingar á 737 MAX vélunum gætu hafist á ný til þeirra flugfélaga sem enn vilja þær.

WSJ segist hafa heimildir fyrir því að ef afhendingu flugvéla seinkar um ár geti flugfélög alla jafna hætt við að fá vélarnar afhentar án þess að þurfa að greiða sérstaklega fyrir það. Í gær var greint frá því að Norwegian telji sig geta hætt við kaup sín á 737 MAX flugvélum vegna þessa. Þá hefur kúveiska flugleigufélagið ALAFCO stefnt Boeing og krefst um 50 milljarða króna í bætur vegna seinkunar á afhendingu flugvélanna.

Hvað gerir Icelandair?

Icelandair hugðist gera 737 MAX flugvélarnar að hryggjarstykkinu í sínum flugflota. Óvissa er um þau áform eins og fleira í tengslum við flugrekstur þessa dagana. Icelandair vinnur að því að víðtækri endurskipulagningu félagsins. Unnið er að því að endursemja við stéttarfélög og vonast er eftir að hluthafar þess, sem eru að mestu lífeyrissjóðir, leggi því til frekara fé.