"Endurteknar fjölmiðlaupphrópanir formanns yfirtökunefndar um mál FL Group eru hættar að koma á óvart, en hann virðist hafa sérstakan áhuga á FL Group," segir Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, í viðtali við Viðskiptablaðið í dag þegar hann var spurður út í ummæli Viðars Más Matthíassonar, formanns yfirtökunefndar í Viðskiptablaðinu í gær.

Viðar sagði þar að nefndin fylgdist grannt þessa dagana með breytingum á eignarhaldi FL Group. Hann sagði enn fremur að úrskurður FME frá síðasta ári þrengdi talsvert að nefndinni. Vísaði hann þar til úrskurðar FME um að hlutafjáraukning í FL Group árið 2005 hefði ekki valdið yfirtökuskyldu stærstu hluthafa. Það hefði gengið þvert á niðurstöðu yfirtökunefndarinnar um sama atriði.

"Yfirtökunefnd komst sjálf að þeirri niðurstöðu sumarið 2005 að ekki væri samstarf með aðilum í FL Group en kúventi skyndilega nokkrum mánuðum síðar í tengslum við hlutfjárhækkun í félaginu," segir Jónas. "Það er einnig rétt að halda því til haga að yfirtökunefnd stóð ekki fastari fyrir en svo, varðandi afleiðingar yfirtökuskyldu, að hún taldi heimilt fyrir stóra hluthafa að losa sig undan skyldunni með því að færa hlutina til viðskiptabanka síns. Sú afstaða virðist hafa verið mótuð á einni nóttu, gerir yfirtökureglur marklausar og stangast á við hefðbundnar túlkanir á ákvæðum um slíka skyldu í Evrópu," segir Jónas Fr. Jónsson í Viðskiptablaðinu í dag.