Endurupptökunefnd hefur hafnað beiðni Ólafs Ólafssonar um endurupptöku á Al Thani málinu.

Beiðni Ólafs byggði á því að sönnunargögn hefði verið rangt metin. Í beiðninni sagði að upptaka á tveggja manna tali hafi verið talin vera mikilvægt sönnunargagn í málinu, en upptakin þótti sýna að Ólafur hafi átt að njóta hlutdeildar í hagnaði af Al Thani viðskiptunum og að honum hafi verið það kunnugt. Þeir menn sem voru þar að tala saman voru hins vegar að vísa til annars Ólafs, sem kom að málinu sem ráðgjafi, og því hafi ályktanir sem dregnar voru af samtalinu rangar.

Einnig var því haldið fram í beiðni Ólafs að í dóminum hafi setið dómarar sem að hans mati voru vanhæfir vegna tengsla ættingja þeirra við slitastjórn Kaupþings, sem hafði mikla hagsmuni af því að sakfellt yrði í málinu.

Hvaða Ólafur?

Úrskurður endurupptökunefndar hefur ekki verið birtur, en í tilkynningu Ólafs segir að rökstuðningur fyrir niðurstöðu nefndarinnar sé ófullnægjandi. Ekki hafi verið gerður fullnægjandi greinarmunur á því hvaða Ólaf viðskiptin snérust um og við hvaða Ólaf sá sem talar kveðst hafa rætt við. Beiðninni hafi verið hafnað þrátt fyrir að verulegar líkur séu á því að umrædd sönnunargögn hafi verið rangt metin, á þann hátt að það hafi haft áhrif á niðurstöðu máls. Yfirlýsing þess sem átti símtalið staðfesti í bréfi til nefndarinnar að hann myndi ekki til þess að hann hefði rætt við Ólaf Ólafsson um viðskiptin, heldur annan mann með sama nafni. Nefndin sagði þá yfirlýsingu engu breyta.

Fjárhagslegir hagsmunir

Endurupptökunefnd staðfestir í úrskurðinum að Kaupþing hf. kunni að hafa fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðu Al Thani málsins. Hins vegar er ekki fallist á að hagsmunir núverandi og fyrrverandi yfirmanna bankans, sem jafnframt eru synir tveggja hæstaréttardómara sem dæmdu í málinu, verði lagðir að jöfnu við mögulega fjárhagslega hagsmuni slitabúsins af niðurstöðu málsins.

Þórólfur Jónsson hrl., lögmaður Ólafs Ólafssonar segir:

„Slíkur vafi er uppi um að símtal sem sakfelling byggðist að stórum hluta á hafi verið rétt túlkað að nefndin hefði að mínu mati átt að fallast á að málið yrði tekið fyrir að nýju. Skiptir þar ekki minnstu að sá eini sem getur sagt til um hver sé réttur skilningur, sá sem átti það símtal sem um ræðir, staðfestir skilning Ólafs. Við þær aðstæður hefði vitaskuld átt að fallast á beiðnina.“