Arion banki hefur endurreiknað 98% erlendra íbúðalána bankans til einstaklinga. Niðurstaða endurútreikningsins er birt viðskiptavinum í Netbanka Arion banka og verða síðustu lánin birt n.k. laugardag, 26. febrúar, eins og lög gera ráð fyrir.  Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Arion banka.

Í fréttatilkynningunni segir enn fremur:

„Í netbankanum geta viðskiptavinir skoðað endurútreikninginn og kynnt sér þær fjórar leiðir sem þeim standa til boða og metið hver þeirra hentar þeim best t.d. út frá greiðslubyrði eða heildargreiðslum á lánstíma. Þeir viðskiptavinir sem ekki hafa aðgang að netbankanum munu fá sent bréf frá bankanum með upplýsingum um endurútreikninginn. Viðskiptavinir hafa fram til 28. mars til að velja eina af þeim leiðum sem í boði eru.
Ánægja er meðal viðskiptavina bankans með framsetningu endurútreikningsins og af þeim erlendu lánum sem Arion banki hefur þegar birt hafa um 50% lánþega kynnt sér þá valkosti sem í boði eru og um 18% hafa þegar valið sér þá leið sem þeir telja henta best.
Valkostir sem viðskiptavinum bankans standa til boða eftir endurútreikning erlendra íbúðalána eru verðtryggt eða óverðtryggt lán með jöfnum afborgunum og verðtryggt eða óverðtryggt jafngreiðslulán. Auk þessara valkosta gefst viðskiptavinum kostur á því að halda óbreyttu láni, hvort sem um upphaflegt lán er að ræða eða nýttar hafa verið lausnir bankans.
Í þeim undantekningartilfellum þar sem endurútreikningi er ekki lokið er um að ræða óvenju flókin mál sem þarfnast sérmeðferðar. Aðeins eru það nokkrir tugir mála og mun endurútreikningi þeirra ljúka á allra næstu dögum og verða þau birt viðskiptavinum strax í kjölfarið.
Viðskiptavinum bankans er bent á að allar nánari upplýsingar um þá valkosti sem í boði eru má finna á vef Arion banka og í netbankanum. Eru viðskiptavinir hvattir til að setja sig í samband við þjónusturáðgjafa hafi þeir spurningar varðandi endurútreikninginn eða til að kynna sér aðra kosti.“