Íslendingar framleiða minna sorp miðað við höfðatölu en íbúar allra hinna Norðurlandanna. Þá er hærra hlutfall sorps endurunnið á Íslandi heldur en á öllum hinum Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í skýrslu Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, sem birt var í síðustu viku.

Hver Íslendingur framleiddi að meðaltali 345 kíló af sorpi árið 2013. Sama tala fyrir Noreg er 423 kíló, en Danmörk er það land í Evrópu þar sem mest sorp er framleitt miðað við höfðatölu, eða 759 kíló á mann. Meðaltalið fyrir ríki ESB er 475 kíló. Íslendingar endurunnu 38% af sorpi, en á hinum Norðurlöndunum var hlutfallið 18-33%.

Hins vegar er Ísland einnig það Norðurlandanna þar sem hæst hlutfall sorps er urðað, eða 49%. Það má skýra með því að vægi jarðgerðar og sorpbrennslu er mun meira á hinum Norðurlöndunum.